Iceland

Láttu ekki húðina endurspegla streituna

Hér koma leiðbeiningar um leiðir til að hafa stjórn á streitunni til hagsbóta fyrir almenna heilsu þína og útlit.

Streita getur haft áhrif á heilbrigði hjartans, meltinguna, þyngdina, minnið og meira að segja getu þína til að sofa. Streita og svefnskortur geta jafnframt haft neikvæð áhrif á útlitið, valdið húðlýtum og bólum, og sömuleiðis leitt til rakaskorts í húðinni sem getur haft í för með sér fínar línur og hrukkur. Streita getur einnig haft neikvæð áhrif á hárið og leitt til þess að það gráni og þynnist vegna hárloss. Í nafni fegurðarinnar bendum við því á nokkrar leiðir til að læra að draga úr streitu.

Kenndu þér slökun

Fyrir sumt fólk getur slökun verið afar erfið. Takist þér hins vegar að taka frá þó ekki sé nema fáeinar mínútur á dag til að stunda hugleiðslu er það til mikilla hagsbóta fyrir hugann, líkamann og sálarlífið. Með því að komast í friðsælt slökunarástand leysir þú úr læðingi efni í líkamanum sem eru gagnleg sem mótvægi við streituhormónin sem þú framleiðir. Jóga eða djúpöndunaræfingar geta hjálpað þér að öðlast ró. Þegar það tekst getur þú dregið úr streitutengdum einkennum sem hafa neikvæð áhrif á þig. Taktu frá 5 til 10 mínútur á dag til að hjálpa þér að slaka á.

Nokkur róandi hollráð:
  • Finndu þér stað sem er friðsæll og fjarri hinni daglegu ringulreið.
  • Lokaðu augunum, sittu með beint bak og leggðu hendurnar í kjöltu þína.
  • Byrjaðu að anda hægt og rólega. Andaðu að þér gegnum nefið þar til lungun eru fullþanin og andaðu síðan rólega frá þér gegnum munninn. Djúpöndun hjálpar til við að hægja á hjartslættinum og fylla þig rósemistilfinningu. Hún hjálpar einnig til við að lækka blóðþrýsting.

Ef þú getur tekið frá meira en 10 mínútur í slökun, gerðu það þá. Fáeinar aukamínútur af deginum munu hjálpa þér að draga enn frekar úr streitunni.

Komdu þér á fætur og hreyfðu þig

Hreyfing getur verið fullkomin leið til að draga úr streitu. Hún bætir ekki eingöngu blóðrásina, sem er frábært fyrir húðina, heldur leysir hún úr læðingi endorfín, sem geta í senn skapað orkutilfinningu og rósemi. Farðu því í rösklega gönguferð, skráðu þig í æfingatíma eða farðu út að hjóla. Hreyfing er alveg tilvalin leið til að draga úr streitu, hreinsa hugann og öðlast hina hraustlegu útgeislun sem fylgir í kjölfar áreynslu.

Gakktu til verka á einbeittan hátt

Ekkert er verra en að vera alveg útkeyrður í líðan (og útliti). Frekar en að leyfa verkefnum dagsins að virðast algerlega óyfirstíganleg skalt þú reyna að hafa stjórn á þeim með réttri forgangsröðun. Mér finnst frábært að gera lista yfir dagleg verkefni mín í minnisbók en einnig er hægt að sækja app til þess. Mér finnst ég fá betri yfirsýn ef ég get litið yfir hin ýmsu verkefni sem ég þarf að ljúka. Ég get þá greint milli þess sem ég verð að koma í verk og þess sem ég vonast til að koma í verk. Stundum átta ég mig líka á því að ég get frestað sumum verkefnum yfir á annan dag. Þetta dregur ekki aðeins úr streitu heldur gerir það mér kleift að afkasta meiru. Mér þykir líka frábært að strika yfir verkefni sem ég hef lokið.

Erfitt getur verið að læra að ná stjórn á streitunni. Öll þurfum við hins vegar að nýta hvert tækifæri sem gefst til að halda henni innan viðráðanlegra marka. Þegar þú hefur náð betri tökum á að slaka á tekur þú örugglega eftir breytingu á hátterni þínu og útliti. Kveddu áhyggjuhrukkurnar milli augabrúnanna og streitulínunar í andlitinu og taktu fagnandi á móti nýrri og endurnærðri manneskju.