Iceland

Sjö ástæður til þess að hefja daginn á heilnæmum morgunverði

Nr. 1: Heilsuvernd með hjálp ómissandi næringarefna

Komdu þér í gírinn fyrir daginn með því að tryggja þér bráðnauðsynleg næringarefni! Auk þess að gefa orku (hitaeiningar) getur heilnæmur morgunverður fært okkur þá næringu sem líkaminn þarfnast, þar á meðal trefjar, vítamín og steinefni. Morgunverðurinn ætti að gefa milli 15 til 25% af heildarorkunni sem þú neytir á dag og mundu að þetta snýst ekki bara um að fá sér einhvern morgunverð – málið er að fá sér heilnæman morgunverð.

Nr. 2: Stjórn á þyngdinni

Ef við sleppum morgunverði, eða ef næringarefnin í honum eru af skornum skammti, getum við orðið líklegri til þess að freistast til að borða óheilnæm og hitaeiningarík matvæli síðar um daginn*. Raunar sýna rannsóknir að daglegt fæðumynstur er gjarnan heilnæmara hjá einstaklingum sem huga vel að gæðum morgunverðarins en hjá þeim sem gera það ekki.

Nr. 3: Varðveisla vöðvanna

Prótein skiptir höfuðmáli til þess að byggja upp og varðveita vöðva og líkaminn reiðir sig á prótein í fæðunni til þess að geta sinnt því verki. Þar sem líkaminn er aðeins fær um að nýta takmarkað magn af próteini á hverjum tíma er mikilvægt að dreifa próteinneyslunni yfir daginn.

Nr. 4: Heilbrigð húð

Upphafið að fallegri húð er næring innan frá. Að drekka vatn og gæða sér á heilnæmum morgunverði eru tvær hollar venjur sem hjálpa okkur að fá næringarefnin sem eru svo nauðsynleg fyrir sérhvert líffæri og líffærakerfi í líkamanum – og þar er húðin engin undantekning.

Nr. 5: Efld efnaskipti

Heilnæm morgunmáltíð og minni og tíðari matarskammtar yfir daginn hjálpa til við að koma orkunni í jafnvægi og gera líkamanum kleift að nýta þær hitaeiningar sem honum bjóðast á skilvirkari hátt. Að treysta alfarið á tvær stórar og þungar máltíðir yfir daginn skapar of mikið álag á líkamann og auðveldara er að hafa hemil á hitaeininganeyslunni með þremur meginmáltíðum og tveimur millibitum.

Nr. 6: Öflug heilastarfsemi

Bati á andlegri frammistöðu, einbeitingu og skapferli** – eru þrjár ástæður í viðbót til þess að gæða sér á morgunmáltíð! Án morgunverðar getum við átt erfitt með að einbeita okkur og erum líklegri til þess að verða pirruð og þreytt. Ekki má svo gleyma að endurnýja vökvaforðann eftir nætursvefninn því góður vökvabúskapur hjálpar einnig til við að einbeita sér yfir daginn.

Nr. 7: Lyftistöng fyrir orkuna

Hlutverk morgunverðarins er beinlínis að rjúfa föstuna sem hefur ríkt yfir nóttina og hann hjálpar til við að endurnýja orkuforðann sem líkaminn hefur notað til viðgerða og endurnýjunar meðan við sofum. Vítamín og steinefni eiga einnig þátt í að draga úr þreytu og því getur heilnæmur morgunverður hjálpað til við að forða okkur frá þeirri orkulægð um miðjan morgun, sem er svo dæmigerð hjá þeim sem sleppa fyrstu máltíð dagsins.

 

* Leidy et al. (2013). Æskileg áhrif próteinríks morgunverðar á matarlystar-, hormóna- og taugaboð sem stýra temprun á orkuneyslu hjá stúlkum á efri unglingsárum sem kljást við yfirþyngd/offitu og „sleppa morgunverði“ (Beneficial effects of a higher-protein breakfast on the appetitive, hormonal, and neural signals controlling energy intake regulation in overweight/obese, “breakfast-skipping,” late-adolescent girls). Tímaritið American Journal of Clinical Nutrition; 97(4):677-88.